Um landsaðgang

Landsaðgangur að rafrænum gagnasöfnum og tímaritum - hvar.is veitir öllum sem tengjast Netinu um íslenskar netveitur aðgang að heildartexta tímaritsgreina úr um 21 þús. tímaritum og útdráttum greina um 10 þús. tímarita. Ríflega 200 aðilar greiða fyrir aðganginn, þar á meðal eru almenningsbókasöfn, bókasöfn framhaldsskóla, íslenskir háskólar, bókasöfn heilbrigðisstofnana, ráðuneyti, rannsóknar- og stjórnsýslustofnanir, opinber hlutafélög, fyrirtæki o.fl. Einnig er greitt til Landsaðgangsins með framlögum á fjárlögum. Nánari upplýsingar um greiðendur er að finna á síðu um greiðendur

Starfsemi Landsaðgangs að rafrænum gagnasöfnum og tímaritum hófst með formlegum hætti 23. apríl 1999 þegar landsaðgangur að Encyclopaedia Britannica hófst. Um sama leyti hófst vinna við að meta þörf fyrir aðgang að gögnum á rafrænu formi og semja um aðgang að þeim sem Verkefnisstjórn um rafrænan aðgang sá um.   

Í desember 2002 var undirritaður þjónustusamningur á milli menntamálaráðuneytis og Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn sem fól í sér að safnið hefði umsjón með Landsaðgangi - hvar.is. Þjónustusamningurinn var endurnýjaður með nokkrum breytingum í lok árs 2006. 

Í Lögum um Landsbókasafn Íslands - Háskólabókasafn (Lög  nr. 142 28. september 2011) er í 4. gr. kveðið á um að Landsbókasafn Íslands - Háskólabókasafns ræki hlutverk sitt með því „að efla aðgang að erlendum gögnum í þágu vísinda og fræða, stjórnsýslu og atvinnulífs, meðal annars með því að annast framkvæmd samninga um landsaðgang að rafrænum gagnasöfnum og tímaritum í samráði við helstu hagsmunaaðila"

Stjórn Landsaðgangs - hvar.is

Til ráðgjafar er starfandi stjórnarnefnd sem tekur m.a. þátt í stefnumótun og ákvörðunum um val á rafrænum gagnasöfnum og tímaritum. Þá ákveður stjórnin skiptingu greiðslna eftir hópum, samþykkir fjárhagsáætlun og undir hana eru bornir samningar við birgja. 

Í stjórnarnefnd 2014 eru.

  • Anna Sveinsdóttir  
  • Baldvin Zarioh
  • Guðrún Tryggvadóttir
  • Pálína Magnúsdóttir
  • Sólveig Þorsteinsdóttir